föstudagur, mars 30, 2007

La Belle et la Bete (Jean Cocteau, 1946, Frakkland)

Flest allir kannast nú við ævintýrið um Fríðu og Dýrið og þá líklegast í útgáfu Disney. Hér tekst Cocteau að gera tillfinningar Fríðu og Dýrsins mun dýpri og eiginlegri og þó að samband þeirra eigi ekki von um að fullkomnast þá er ástin raunveruleg. Engin myndarlegur prins breytir sambandi þeirra til þess betra er Dýrið umbreytist í lokin og Greta Garbo jafnvel hrópaði að lokinni frumsýingu myndarinna „Give me back my beast!“.

Cocteau var vel að sér í listasögu og framúrstefnulistgreinum og má sjá margar vitnanir í málverk eftir listamenn svo sem Fusili og Vermeer í stórkostlegum sviðsmyndum Christian Bérard. Cocteau dróg úr því að tökumaðurinn Alekan notaði tæknilegar tökur og leyfa sviðsmyndinni að njóta sín og við það eflist sá ævintýraheimur sem dreginn er fyrir okkur. Myndinn hefst á orðunum „Once upon a time…“ og er síðan haldið grátbroslegri tilfinningu með barnslegrí sýn á veruleikanum. Skáldið Paul Éluard sagði að til að skilja myndina yrði maður að elska hund sinn meir en bíl sinn.

Jean Cocteau taldi sjálfan sig ávallt vera ljóðskáld en starfaði mikið í öðrum miðlum. Hann meðal annars skrifaði skáldsögur og leiktrit, teiknaði og málaði, leikstýrði kvikmyndum og ballet ásamt því að hanna sviðsmyndir. Hann gerði þríleik þar sem hann skoðar líf listamannsins, Le Sang d'un poète, Le Orphée og Le Testament d'Orphée. Myndinar endurspegla Cocteau sem ljóðskald og færni hans á svið framúrstenfulistum svo sem súrrealisma er með einsdæmum. Hann réð leikarann og ástmann sinn Jean Marais (Dýrið) í margar sinna mynda og hélt engu leyndu um samkynheigð sína og skyggði það ekkert á snildargáfu hans. Þrátt fyrir stutta dvöl í kvikmyndaiðnaðnum þá skyldi hann eftir sig sex kvikmyndir og nokkur handrtit til viðbótar og má þá nefna Les Enfants terribles eftir Jean-Pierre Melville. Cocteau fannst margir ekki meta La Belle et la Bete rétt og skrifaði því svar sem var útgefið með sýningarbæklingnum á frumsýningu myndarinnar í Bandaríkjunum (svarið má finna hér). Hins vegar segir hann næstum áratug síðar í viðtali í Newsweek (16. maí 1955) „Asking an artist to talk about his work is like asking a plant to discuss horticulture.“.

fimmtudagur, mars 29, 2007

A Matter of Life and Death (Michael Powell og Emeric Pressburger, 1946, Bretland)

Á leið heim úr sprengjuárás í maí 1945 verður flugvél Peter Carter fyrir tjóni og hrapar. Carter kemur áhöfninni örugglega út í fallhlífum, en ákveður sjálfur að farast með vélinni. Hann sest í flugstjórasætið og tilkynnir flugeftirlitinu stöðuna, honum svarar ung kona sem Carter hrífst svo af að hann ákveður að stökkva úr vélinni til að reyna að bjarga sér. Honum skolar á land og rankar við sér og heldur af stað til að finna konuna í talstöðinni. Á meðan er upplausn í himnaríki, Peter Carter, sem átti að deyja fannst ekki og var þar af leiðandi ekki hægt að enda jarðneska tilveru hans á réttum tíma. Starfsmaður himnaríkis númer 71 er sendur til að tilkynna Carter stöðuna og sækja hann, en þá er hann búinn að finna stúlkuna og orðinn ástfanginn.

Þessi fallega mynd um gildi ástarinnar og hið góða í manninum, var upphaflega ætluð til að bæta samband Bretlands og Bandaríkjanna eftir stríð. Hún endaði hins vegar sem svo mikið meira, himnesk fyndni um lífið. Hún gerist hvort tveggja í svarthvítu himnaríki og á litríkri (technicolor) jörðu og með leikmyndarhönnun Alfred Junge verða skiptingarnar á milli fljótandi og áreynslulausar.

Leikstjórar myndarinnar Michael Powell og Emeric Pressburger áttu í afar farsælu samstarfi í 19 myndum og teljast með mikilvægustu leikstjórum breskrar kvikmyndasögu. Samstarf þeirra var gat meðal annars af sér myndir eins og The Red Shoes (1948) gerða eftir ævintýri H.C. Andersen og The Life and Death of Colonel Blimp (1943). Powell leikstýrði síðar mynd sem kinofíll sýndi fyrr á misserinu, Peeping Tom (1960).

föstudagur, mars 23, 2007



The Thin Blue Line (Errol Morris, 1988, USA)

Randall Adams verður fyrir því óláni að verða bensínlaus á flakki sínu. Hann þiggur far með sextán ára strák, David Harris, og eyða þeir deginum saman. Þeir drekka smá bjór, reykja gras og skella sér síðan í bílabíó. Hér fer síðan frásögn þeirra á áframhaldandi atburðum að stangast þá. Randall segist fegnið David til að skutla sér heim á hótelið sem hann gisti á með bróður sínum. David hinsvega vill meina að Randall og hann hafi haldið áfram að rúnta og verið síðan stövaðir af lögreglunni. Samkvæmt David á Randall að hafa síðan myrt annan lögregluþjóninn og síðan brunað af stað. Randall ver dæmdur fyrir morðið og skoðar myndin þá lörgreglurannsókn sem kom honum í steininn.

Myndin notar sviðsetningu atburða ásamt viðtölum og frásögnum vitna. Hún ekki aðeins gangýnir rannsóknina með orðum heldur einnig myndrænt séð með klippingu og því að hægja á sýningarhraða. Þessi mynd Morris átti stóran þátt í að fá dóm Randall afturkallaðann og hefur Randall síðan þá verið baráttumaður gegn dauðrefsingu. David Harris síðar tekinn af lífi fyrir morð á Mark Hays.

Morris fékk ekki mikla athygli innan kvimyndamenningarinnar þó að hún hafi verið áhrifarík í lífi Randall Adams en síðar hlaut hann Óskarinn fyrir The Fog of War árið 2004 og einnig tilnefndur fyrir leikstjórn hennar hjá Directors Guild of America.

föstudagur, mars 16, 2007


An Actor’s Revenge ( Yukinojo Henge, Kon Ichikawa, 1963, Japan)

Það gerist ekki oft að maður geti sagt að mynd græði á því að leikstjórinn vildi alls ekki gera hana en hér á það svo sannarlega við. Hann var í ónáð hjá stúdíóinu (Daiei) eftir að tvær af síðustu myndum hans höfðu komið út í tapi. Honum var skipað að gera þessa mynd og gat ekki neitað. Myndin er gerð til að halda upp á þrjú hundruðustu mynd leikarans Kazuo Hasegawa og er endurgerð á vinsælustu mynd hans, þar sem hann lék tvö hlutverk: Annars Kabuki leikari sem er alltaf í kvengervi og hins vegar þjófur sem aðstoðar leikarann við að hefna foreldra sinna. Þetta er ævintýramynd með miklum hasar. Þegar Hasegawa lék hlutverkin upphaflega var hann 27 ára. Nú var hann 55 ára.

Í stað þess að tóna niður fáránleika og óraunsæi sögunnar ákvað Ichikawa að gera grín að öllu saman og leikur sér að leikræni og gervimennsku verksins og bjó í rauninni til leikna teiknimynd, enda hóf hann feril sinn sem Manga teiknari. Hann skýtur inn hugsanabólum, afar gervilegum leikmyndum, furðulegri tónlist og þar fram eftir götunum. Auk þess gerir hann mikið úr áhugaverðri kynjaframsetningu myndarinnar og má nefna senu þar sem Hasegawa sem maður sér sjálfan sig sem sem mann að leika konu að stunda kynlíf með konu.

Kon Ichikawa er ennþá á lífi og starfandi. Hann er óneitanlega hæfileikaríkur kvikmyndagerðarmaður og hefur gert töluvert af merkilegum myndum af ýmsu tagi. Hér verður að minnast á afar húmanískar, óþægilega raunsæjar stríðsmyndir eins og The Burmese Harp og Fires on the Plain og hinu stórmerku heimildarmynd Tokyo Olympiad, sem gjörbreytti hvernig íþróttaefni er tekið upp. Hins vegar hefur hann reynt mistækur og það er ekki með góðri samvisku hægt að ráðleggja allar myndir hans.

Harakiri (Seppuku, Masaki Kobayashi, 1962, Japan)

Samúræi bankar upp á hjá aðalsmanni og útskýrir að hann sé húsbóndalaus, kominn á vonarvöl og óskar eftir að fá að svipta sig lífi á samúræamátann á landi aðalsmannsins. Eftir ítrekaðar tilraunir til að telja hann ofan af þessu, meðal annars með frásögn af öðrum samúræa sem óskaði hins sama og vegna grunsemda um að samúræinn sé aðeins að reyna nota samúð til að betla, samþykkja þeir kröfu hans. Meðan á undirbúningur athafnarinnar stendur yfir hefur samúræinn að segja sögu sína og það hleðst á grunsemdir aðalsmannsins og manna hans að ýmislegt fleira búi undir.

Frásögnin er afar hæg og byggir mikið á endurtekningum, en á þann hátt byggir myndin upp gríðarlega spennu og togstreitu og er aldrei langdreginn eða leiðinleg. Umfjöllunarefni Harakiri er hræsni. Hún ræðst heiftarlega á stéttarhyggju og samfélagslegan skort á samkennd og notar fortíðina til að skoða nútímann. Kobayashi er aðeins nýlega enduruppgötvaður á vesturlöndum en gerði nokkrar gríðargóðar og verðlaunaðar myndir, s.s. Samurai Rebellion og Kwaidan. Auk þess er hinn vanmetni og afar góði Tatsyua Nakadai í aðalhlutverkinu.

Harakiri (og raunar flestar myndir Kobayashi) er út í gegn mínímalískt verkt, hún notar mjög takmarkaðar leikmyndir, hreyfingar og hún notar tónlist lítið o.s.frv. en hún notar alla þætti mjög markvisst og því hafa þeir skarpari og skýrari merkingu en í flestum öðrum myndum. Hins vegar notar hún klippingu mjög skýrt til að marka færslu milli tíma, en það er mikið notast við endurlit (flashback). Annar áberandi þáttur eru myndavélarhreyfingar, en Kobayashi er meistari á því sviði.

föstudagur, mars 09, 2007

Straw Dogs (Sam Peckinpah, 1971, UK)

"Bloody" Sam Peckinpah var ekki og mun aldrei verða þekktur fyrir að fara fínt í hlutina. Þetta er hiklaust hans umdeildasta mynd og sú sem klýfur fólk mest í afstöðu sinni og er þá mikið sagt. Hann ætlaði sér að gera mynd um ofbeldi, orsakir þess, virkni og afleiðingar... Ofbeldi eins og það er: Missir, sársauki og eyðilegging á eðlilegum tengslum milli fólks, samfélags og sambanda. Umfram allt ætlaði hann sér að fjalla um ofbeldið sem karlmenn sýna konum á líkamlegan, kynferðislegan og félagslegan hátt.

Útkoman varð Straw Dogs og það er undir hverjum og einum komið að úrskurða hvort Sam Peckinpah tókst ætlunarverk sitt.

Sagan fylgir óframfærnum stærðfræðing, leiknum af Dustin Hoffman, sem er fluttur ásamt enskri eiginkonu sinni á æskuslóðir hennar við smáþorp í Norður-Englandi. Þorpsbúar líta á þau sem vafasöm, aðhlátursefni eða sýna þeim hreinlega fyrirlitningu. Spenna byggist upp þar til tveim sprengipunktum er náð í frægustu, umdeildustu, áhrifamestu og tvíræðustu köflum myndarinnar. Hér er betra að sjá sjálfur en lesa annara manna lýsingar, en þó skal sagt að þessar senur eru mikilvægar en erfiðar áhorfs.

Sam Peckinpah sagði eftir að myndin fór í sýningu og fékk hörð viðbrögð að honum hefði mistekist ætlunarverk sitt. Boðskapurinn hefði glatast og að notkun hans á afar raunsæu ofbeldi til að sýna hrylling þess hefði farið fram hjá fólki. Myndin hefur all tíð legið undir ámæli fyrir kvenfyrirlitningu og hana mætti lesa á þann hátt, en hún hefur ekki síður verið lesin sem óþægileg áminning þess að konur þurfa að þola meira og harðara ofbeldi en karlar. En hvort sem honum tókst eða tókst ekki að vekja fólk til umhugsunar er ekki hægt að neita því að hér er á ferðinni meistaraleg kvikmyndagerð. Myndataka, leikur, handrit, frásögn, tónlist og sér í lagi klipping eru öll eins og best verður á kosið. Enn ein sönnun þess að þó Peckinpah verði að eilífu umdeildur maður, þá er hann einn merkasti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar.
Visitor Q (Bijita Q, Takashi Miike, 2000, Japan)

Millistéttarfjölskylda liggur í molum. Faðirinn og sonurinn eru báðir lagðir í einelti, annar í vinnunni og hinn í skólanum. Móðirin er orðin háð lyfjum vegna verkja og skorts á nánum fjölskyldutengslum. Dóttirin er svo gott sem flúin og lögst í vændi. Og þá kemur inn í líf þeirra algjörlega ókunnugur maður sem er kallaður Q, sem beitir þau ofbeldi og setur líf þeirra í skorðum. Tilgangur hans virðist hins vegar vera að endurreisa fjölskylduna en eyðileggja hana. Þetta er mjög öfgakennd mynd, gróf og hreinlega dulítið sjúk. En hún hefur boðskap og tilgang sem er mikilvægur í nútímasamfélaginu.

Myndin var gerð fyrir nærri ekkert og á stafrænu formi, sem eykur á tilfinningu þess að við séum að horfa á beinar upptökur af atburðum fremur en sviðsetningar. Þessi gríðarlega ögrandi mynd gæti talist meistarastykki Miikes. Hann gerir ekki lítið úr eða grín að fjölskyldum, heldur lýsir áhyggjum (á öfgakenndan hátt) á hvert klassíska fjölskyldubyggingin sé að stefna, sérstaklega í Japan 21. aldarinnar.

Takashi Miike er vinnudýr. Hann gerir að meðaltali um fimm myndir á ári og flestar eru í besta falli umdeilanlegar, sérstaklega fyrir ofbeldi og öfgar. Til að telja til nokkrar af þekktari myndum hans mætti nefna Audition, Ichi the Killer, Happiness of the Katakuris og Dead or Alive. Hann er að ljúka næstu mynd sinni, sem er gerð á ensku og meðal leikara er góðvinur hans, Quentin Tarantino. Myndin, Sukiyaki Western Django, gerist í Japan á miðöldum og ku minna á ekki ómerkari myndir en Yojimbo, A Fistful of Dollars og Django (Til gamans mætti geta að Kinofíll sýndi Django í nóvember síðastliðnum).

fimmtudagur, mars 01, 2007

Good Morning (Ohiyo, Yasojiro Ozu, 1959, Japan)

Ohayo þýðir góðan daginn og er afar lýsandi titill á þessari stórmerkilegu sýn Yasujiro Ozu á hversdagslífið í úthverfi í Japan. Myndin snýst um samskipti og er samfélaginu skipt í umræðuhópa, hina fullorðnu þar sem konurnar rífast um félagsgjöld i kevnnaklúbbinn og baktala hvora aðra og karlana, sem vilja sem minnst vandræði og spila bara blotto í sjoppunni. Krakkanir hópast í eitt húsið til að horfa á súmóglímu í eina sjónvarpinu í hverfinu. Samtölin í hverjum hóp eru sérstök og skoðanir krakkanna á endalausu spjalli foreldranna um ekki neitt koma fram þegar foreldrarnir ákveða að banna þeim að horfa á súmóglímuna og láta þau læra heima í staðinn.

Vestræn áhrif eru víða farin að troða sér inn í japanskt samfélag og þegar tveimur ungum drengjum er neitað um að sjónvarp sé keypt inn á heimilið og sagt að vera hljóðir þá gera þeir nákvæmlega það, þeir fara í talverkfall. Það kemur af stað mikilli ólgu í hverfinu þar sem mikilvægi innihaldslausra samræðna í samskiptum fólks er gríðarlegt. Foreldrarnir halda að verkfallið muni ekki endast lengi en þegar það reynist rangt og það dregst á langinn fara þeir að sjá vandamálið, þeir reyna meðvitað að eiga þvingaðar samræður um alvöru málefni en tekst illa til og finna sig knúna til að reyna að þægja uppreisnina með breyttum samskiptum.

Leikstjóri myndarinnar er einn af fremstu leikstjórum japanskrar kvikmyndasögu og er hann sérstaklega frægur fyrir hægar dramatískar myndir þar sem afar sterkur undirtónn er gefinn t.d. Tokyo Story (1953) og Floating Weeds (1959). Ohayo er hins vegar gamanmynd þar sem hversdagslífinu í Japan á 6.áratugnum er komið snilldarlega á framfæri. Hún gerist á þeim tíma þegar vestrið er að hefja innreið sína í samfélagið, þar sem unga fólkið tekur því fagnandi en hinir eldri kunna ekki almennilega að bregðast við og vilja helst ekki taka á málunum og halda frekar í gömlu gildin.

The Firemen´s Ball (Horí ma Panenko, Milos Forman, 1967, Tékkoslóvakia)

Í smáþorpi nokkru í Tékkoslóvakíu er verið að skipuleggja árlegt hóf slökkvuliðsmannanna, tombóla sett saman og vinningum safnað, haldnar eru prufur fyrir fegurðarsamkeppni og sigurvegarinn mun veita 86 ára forseta nefndarinnar gullexi fyrir starf sitt. Lífið og ófyrirsjáanlegar aðstæður sjá hins vegar til þess að ekkert gerist eins og skal. Tombóluvinningarnir hverfa sporlaust hver á fætur öðrum, skipulagsnefndin, sem finnur aðeins feimnar stúlkur og grimmar mæður, hefst við að ræna stúlkum hvort sem þær eru fríðar eður ei og aldni forsetinn, sem þráir að komast á klósettið er látinn bíða og bíða.

Myndin sem er skrifuð af Milos Forman, Jaroslav Papousek og Ivan Passer og er byggð á raunverulegu hófi slökkvuliðsmanna sem þeir fóru á. Samkvæmt Forman: „Það sem við sáum var svo mikil martröð að við hættum ekki að ræða það þar til næsta morguns. Svo við yfigáfum það sem við vorum að skrifa og hófum skrif á þessu handriti“. Myndin sýnir gríðarmikla meðvitund á sovétsku samfélagi og er ekki erfitt að greina viðhorf hennar sem pólitísk táknsaga, samt sem áður þá hefur Forman ætíð haldið því fram að myndin hefur engin „falin tákn né tvöfalda merkingu“. Myndinn var tekin upp á bænum Vrchlabí og notaðir áhugamannaleikarar þaðan, hún var fullkláruð 1967 en geymd í hillu í ár síðan sýnd í þrjár vikur áður en hún var bönnuð og aldrei framar sýnd í kommúniskri Tékkoslovakíu.

Forman flutti stuttu síðar til Bandaríkjanna þar sem hann hélt áfram kvikmyndagerð og gerir enn. Hans þekktustu verk eru One Flew Over the Cockoo´s Nest, Amadeus og The Man on the Moon.

Zero for Conduct (Zeró de Conduite, Jean Vigo, 1933, Frakkland)

Myndin gerist í frönskum heimavistarskóla og segir frá lífi hinna ungu nemenda þar. Líf þeirra er dapurt, leiðigjarnt og þeir virtir sem fangar í augum kennaranna, en það er ráðabrugg í skipulagningu og bylting í augsýn.

Undirtitill myndarinnar, „Young Devils at College“ er mögulega meira lýsandi og í takt við það viðhorf sem haft er á þessum „ungu djöflum“. Myndin er hliðholl börnum fyrir utan einn kennara sem gantast í tímum og teiknar myndasögu sem lifnar svo við. Aðrar fullorðnar persónur eru viðurtstyggilegir, „bourgeois“ útlítandi og má nefna dvergvaxna skólastjórann og viðbjóðslega offeita vísindakennarann. Myndin gerir tilraunir með hæga myndspilun (e. slow-motion), teiknimyndun og gabb myndatöku (e. trick photography) og þá tilraunakvikmyndagerð í ætt við Buñuel og René Clair. Vigo á einnig að hafa fundiið upp „fiskabúrsskotið“, sem eflir innilokunarkennd rýmis þar sem furðulegar sýnir eru framleiddar úr hverju horni.

Myndin var bönnuð þar til 1945 af kvikmyndaskoðun Frakklands, ellefu árum eftir dauða leikstjóra síns. Vigo var aðeins 29 ára gamall er hann lést árið 1934 úr berklum og skildi aðeins fjörgur kvikmyndaverk eftir sig. Árið 1929 fékk hann lánaða peninga til að kaupa tökuvél og gerði sína fyrstu mynd, Á Propos de Nice (1930), með hjálp Boris Kaufman (yngri bróður Dziga Vertov). Hans annað verk var Taris, roi de l´eau (1931) og síðan Zeró de Conduite. Hans síðasta verk var L´Atalante (sem kinofíll sýndi fyrir áramót) kom út 12. september 1934, innan við mánuði áður en Vigo lést um aldur fram.