fimmtudagur, mars 01, 2007

Good Morning (Ohiyo, Yasojiro Ozu, 1959, Japan)

Ohayo þýðir góðan daginn og er afar lýsandi titill á þessari stórmerkilegu sýn Yasujiro Ozu á hversdagslífið í úthverfi í Japan. Myndin snýst um samskipti og er samfélaginu skipt í umræðuhópa, hina fullorðnu þar sem konurnar rífast um félagsgjöld i kevnnaklúbbinn og baktala hvora aðra og karlana, sem vilja sem minnst vandræði og spila bara blotto í sjoppunni. Krakkanir hópast í eitt húsið til að horfa á súmóglímu í eina sjónvarpinu í hverfinu. Samtölin í hverjum hóp eru sérstök og skoðanir krakkanna á endalausu spjalli foreldranna um ekki neitt koma fram þegar foreldrarnir ákveða að banna þeim að horfa á súmóglímuna og láta þau læra heima í staðinn.

Vestræn áhrif eru víða farin að troða sér inn í japanskt samfélag og þegar tveimur ungum drengjum er neitað um að sjónvarp sé keypt inn á heimilið og sagt að vera hljóðir þá gera þeir nákvæmlega það, þeir fara í talverkfall. Það kemur af stað mikilli ólgu í hverfinu þar sem mikilvægi innihaldslausra samræðna í samskiptum fólks er gríðarlegt. Foreldrarnir halda að verkfallið muni ekki endast lengi en þegar það reynist rangt og það dregst á langinn fara þeir að sjá vandamálið, þeir reyna meðvitað að eiga þvingaðar samræður um alvöru málefni en tekst illa til og finna sig knúna til að reyna að þægja uppreisnina með breyttum samskiptum.

Leikstjóri myndarinnar er einn af fremstu leikstjórum japanskrar kvikmyndasögu og er hann sérstaklega frægur fyrir hægar dramatískar myndir þar sem afar sterkur undirtónn er gefinn t.d. Tokyo Story (1953) og Floating Weeds (1959). Ohayo er hins vegar gamanmynd þar sem hversdagslífinu í Japan á 6.áratugnum er komið snilldarlega á framfæri. Hún gerist á þeim tíma þegar vestrið er að hefja innreið sína í samfélagið, þar sem unga fólkið tekur því fagnandi en hinir eldri kunna ekki almennilega að bregðast við og vilja helst ekki taka á málunum og halda frekar í gömlu gildin.

Engin ummæli: