miðvikudagur, janúar 31, 2007

Z (Costa-Gavras, 1969, Alería/Frakkland)

Vinstrisinnaður stjórnmálamaður (Yves Montand) fyrir ríkisandstöðuna á Grikklandi er myrtur og rannsóknarmaður saksóknara (Jean-Louis Trintignant) lendir fjótt í lokuðum húsasundum. Á sama tíma og hann reynir að nálgast sannleikann eru menn innan ríkistjórnarinnar ekki aðeins hilma yfir þátttöku sinni í morðinu heldur einnig að láta líta út fyrir að morðið hafi aldrei átt sér stað.

Myndin er byggð á raunverulegum atbruðum sem hófust þegar Gregorios Lambrakis, meðlimur í andstöðuflokk í Grikklandi, lenti í “bílslysi” 22. maí 1963 sem leiddi til dauð hans. Slysið virtist gruggugt og var rannsókn sett í gang til að jkdsgfs um að slys var að ræða, en kom í ljós að Lambrakis var í raun og veru myrtur af hægrisinnaðri stofnun. Menn innan ríkisstjórnarinna og hersins voru sakaðir en síðar sýknaðir meðan þeir sem sáu um að myrða Lambrakis voru dæmdir.

Myndin náði vinsældum um heim allan sem var óvenjulegt fyrir svo pólitíska mynd. Hún var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu mynd, leikstjórn og handtir og vann fyrir klippingu og bestur erlendu mynd.
Manchurian Candidate (John Frankenheimer, 1962, USA)

Marco Bennet (Frank Sinatra) vaknar, nótt eftir nótt, í svitakófi við sömu martröðina. Í martröðinni upplifir hann leiðangur úr Kóreustríðinu en hún stangast á við minningar hans. Bennet kemst að því að félagi hans úr stríðinu fær sömu martröðina og virðast þær miðast kringum annan félaga þeirra, Raymond Shaw (Laurence Harvey). Shaw fékk heiðursorðu fyrir hugrekki því samkvæmt allri hersveitinni á hann að hafa bjargað henni frá árás í umtöluðum leiðangri. Bennet grunar að minningar sínar um hetjudáð Shaw séu rangar og að hann og sveit sín hafi verið dáleidd af kommúnistum til að vinna gegn ríkisstjórninni og að Shaw sé megin verkfærið.

Manchurian Candidate er kaldastríðs þrillir sem gerist 1952 þegar ógn og hræðsla við kommúnisma er í hámarki. Milli 1950 og 1953 leitaði þingmaðurinn Joseph McCarthy uppi kommúnista innan fjölmiðla og stofanna, sakaði og dæmdi, hvort sem sannanir voru eður ei. Myndin fer jafnvel lengra til að sýna hræðsluna, þar sem ýmsir atburðir í frá þessum tíma í Bandaríkjunum eru notaðir og þingmaðurinn John Islin (James Gregory) er repúblikani sem svipar til McCarthy.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Crumb (Terry Zwigoff, 1994, USA)

Þeir sem þekkja verk myndasöguhöfundarins R. Crumb vita að þar er á ferð maður sem vantar nokkrar dósir í six-pakk. Færri vita að hann er mögulega eðlilegasta manneskjan í fjölskyldu sinni. Í heimildarmynd Terry Zwigoff um listamanninn Crumb kemur fram tregablandinn en engu að síður skemmtileg og heillandi sýn á líf hans þar sem fylgst er með risi hans sem neðjanjarðarmyndasöguhöfundur á 7. áratug síðustu aldar. Myndin fylgist með síðustu mánuðum hans áður en hann leggst í helgan stein og flytur ásamt fjöksyldunni til S.-Frakklands. Viðtöl við vini, ættingja og samstarfsfélaga varpa ljósi á persónuna sjálfa og mótunartíma með tveimur bræðrum, en annar þeirra stundar hugleiðslur á götum San Francisco borgar og hinn er geðsjúklingur, en afar opinská viðtöl við sjálfan Crumb gera myndina afar einlæga og mannlega og byrjar maður sem áhorfandi að skilja Crumb og hans undarlegu lífssýn.

R. Crumb er þekktur fyrir æði frjálslegar teiknimyndasögur þar sem opinskátt kynlíf og undarleg kynlífshegðun eru oft uppi á pallborðinu og meðal verka hans eru upprunalegu sögurnar um köttin Fritz. Framsetning hans á konum er umdeild og eru skiptar skoðanir hvort þetta sé kvenfyrirlitning eða gagnrýni á karlveldið og hræðslu við konur.

Leikstjóri myndarinnar Terry Zwigoff fékk mikið lof fyrir myndina og hún var verðlaunuð í bak og fyrir. Síðari verk hans halda sig við furðufugla og utangarðsmenn og myndasögur en Ghost World, sem gerð er eftir myndasögu Daniel Clowes og Bad Santa sem má segja að sé jafn hráslagaleg og sumar myndasagna Crumb hafa báðar hlotið verðskuldað lof. Svo að lokum má geta þess að aðalframleiðendi myndarinnar er David Lynch sem er yfirlýstur aðdáandi “annars konar” myndasagna.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Harlan County USA (Barbara Kopple, 1976, USA)

Árið 1973 lögðu námuverkamenn í Harlan County, Kentucky, niður störf og hófu verkfall sem stóð í þrettán mánuði. Mynd Barböru Kopple vefur saman þáverandi baráttu námuverkamanna Harlan County og verkfalls frá kreppuárunum sem nefnt heur verið ‘The Bloody Harlan Strike’. Myndin fylgir einnig framboði Alan Miller (fyrir Miners for Democracy) til forseta UMWA (United Mine Workers of America) sem og flakkar aftur nokkur ár aftur til harðrar kosningabaráttu sem leiddi til morðs.

Upphaflegt umfjöllunarefni myndar Kopple var framboð Alan Miller, og réttarhöld þáverandi forseta UMWA, Tony Boyle, sem var grunaður um að hafa skipulagt morðið á mótframbjóðanda sínum, Joseph Yablonski. Þegar verkfallið hófst færði hún athygli sína til námuverkamannanna, líferni þeirra, baráttu og fjölskyldna, en upphaflega efninu haldið í bakgrunninum. Frásögnin hefst hljóðlega með mótmælafundum, kröfugöngum, og skipulagningu eiginkvenna verkamannana á stuðningshópum. Síðan rís hún með atburðum svo sem þegar ráðist er á kvikmyndatökumann og þegar skotið er á mótmælendur og endar að lokum á hatramman hátt þar sem hvorki áhorfandinn né verkamennirnir eru skildir eftir með tilfinningu fyrir lausn á vandanum.

Kopple notar 16mm myndavélar og tekur hljóðið upp á staðnum, og fórnar því gæðum fyrir hreyfanleika. Myndin er í cinema verité stíl en beygir frá honum með notkun á áður uppteknu efni, viðtölum og tónlist. Tónlistin er að mestu byggð á söngvahefð svæðisins og tjáir svipaða dialektík og myndefnið.

fimmtudagur, janúar 18, 2007



Flesh for Frankenstein (Paul Morrissey, 1973)

,,Vantar hið fullkomna Serbneska nasúm (þ.e. nef)” þetta er það síðasta sem barón Frankenstein vantar í uppskrift sína að hinum fullkomna manni. Hann er með áform um að fullkomna hið rasíska hugverk sitt, þar sem hann áformar að para hinn “fullkomna” mann með hinni “fullkomnu” konu og búa til æðra kyn. Þau áform fara fyrir lítið þegar kemur í ljós að serbneska nefið, sem baróninn varð sér úti um, tilheyrir Nicholas, tilvonandi munki sem Frankenstein og aðsoðarmaður hans finna við hóruhús bæjarins og drepa snarlega. En þegar haus Nicholas er kominn á sinn stað og skrímslið komið á stjá, þá kemur í ljós að það lútir huga Nicholas og áform Frankenstein um pörun hinna “fullkomnu” fer algjörlega út um þúfur. Söguþráður myndarinnar er í grófum dráttum á þessa leið en í myndina fléttast líka systkinaást, blóðsúthellingar og almennt siðleysi sem betra er að sjá en lýsa í orðum.

Með hlutverk baróns Frankenstein fer B-mynda hetjan Udo Kier og hann smitar baróninn af afar þykkum þýskum hreim sínum sem eykur á annars gríðarlega léttúð myndarinnar. Myndin er af skóla Andy Warhols og er oft kölluð Andy Warhol´s Frankenstein, en Warhol framleiddi margar “öðruvísi” myndir og leikstýrði Morrissey nokkrum þeirra, m.a. þríleiknum Flesh, Trash og Heat. Hugsanlega koma mörg atriði myndarinnar ankannalega fyrirsjónir þar sem persónur eiga það oft til að vera með snöggar hreyfingar eða líffærakast í átt að áhorfendum. En myndin var tekin upp með þrívíddartækni sem löngu er hætt að notast við á sýningum og eykur það enn á skemmtanagildi myndarinnar.

Djúpt, undir öllu klámi, ofbeldi og óráðsíu myndarinnar, má finna grafinn boðskap. Hún varpar ljósi á vísitölufjölskylduna og gagnrýnir hana á vægast sagt óþægilegan hátt. Í myndinni sýna allar persónur mikla gægjuþörf og einkarými fólks er aldrei heilagt. Hún er á margan hátt háðsádeila og Morrissey hugsaði hana sem gamanmynd. Það er kannski auðveldast að lýsa þessari mynd sem splatter gamanmynd með verulegum blóðsúthellingum og líffærum á öllum köntum.
Pink Flamingos (John Waters, 1972, USA)

Divine ber (með stolti) titilinn „viðurstyggilegasta manneskjan á lífi“ og býr í hjólhýsi sínu í skógarjaðri undir dulnefninu Babs Johnson. (Hér skal nefna að Divine er í raun u.þ.b. 150 kg karlmaður að nafni Harris Glenn Millstead). Þar býr hún ásamt egg-elskandi móður sinni Edie, hippa syni sínum Crackers og förunauti Cotton. Parið Connie og Raymond Marble eru öfundsjúk í titil Babs og ákveða að ná titlinum af henni. Marble-hjónin reka ættleiðingarþjónustu sem í raun og veru er svartamarkaðsbrask með börn. Hjónin ræna ungum stúlkum og barna þær og selja síðan lesbískum pörum börnin og nota gróðan til að fjármagna heróínsölu í grunnskólum. Hjónin ráða síðan stúlku, Cookie, til að sænga með syni Babs og njósna um viðurstyggilega hegðun fjölskyldunnar. Babs kemst að lokum að bellibrögðum Marble-hjónanna og þá hefst keppni sem fljótlega fer algjörlega úr böndunum.

Pink Flamingos er ein þekktasta „miðnæturmyndin“ og leggur áherslu á öfuguggahátt og blæti og er oft minnst fyrir „coprophagiu“. Miðnæturmyndir eru fyrirbæri í kvikmyndaheiminum sem hófst í byrjun áttunda áratugarins í minni kvikmyndahúsum þar sem sjálfstætt framleiddar kvikmyndir voru sýndar á miðnætursýningum og byggðu sér „költ“ ímynd. Aðrar myndir sem nutu vinsælda miðnætursýninganna eru t.d. The Rocky Horror Picture Show (1975), El Topo (1970), Freaks (1932) og The Night of the Living Dead (1968).

John Waters (1946 -, Baltimore, MD) hóf kvikmyndagerð um miðjan sjöunda ártug síðustu aldar og skrifaði, framleiddi og leikstýriði sínum eigin myndum með sjálstætt öfluðu fé. Hann skaut fyrstu myndir sínar á Baltimore svæðinu og notaði undarlegan vinahóp sinn, sem gekk undir nafninu The Dreamlanders. Um hann myndaðist mikil „költ“ ímynd á áttunda og níunda áratugnum fyrir myndir svo sem Pink Flamingos, Female Trouble (1974), Polyester (1981) og Hairspray (1988). Eftir að eftirlætis leik”kona“ hans og listagyðja, Divine, lést 1989 hefur hann mildast þó nokkuð og myndir frá tíunda áratugnum og einnig nýlega hafa verið nær því „venjulegar“ háðsádeilur svo sem as Serial Mom (1994) og Cecil B. DeMented (2000).

laugardagur, janúar 13, 2007

Passenger (Pasazerka, Andrzej Munk, 1963, Pólland)

Myndin fjallar um fyrrverandi fangavörð úr Auschwitz sem af einskærri tiljviljun rekst á fanga úr búðunum. Þegar hún kemur heim segir hún eiginmanni sínum frá fanganum og síðan er sýnd hennar sýn af þeim atburðunum sem gerðust árum áður. Að því loknu eru hinir raunverulegu atburðir sýndir.

Passanger er ekki um raunveruleika einangrunarbúðanna, heldur um þann kraft sem minni fólks hefur til að gera minningar ódauðlegar og afbaka fortíðina. Hún einnig dvelur ekki á þjóðernum fanganna né kúgaranna. Frekar skoðar hún einstaklingana og líf þeirra við þessar erfiðu aðstæður.

Þetta er síðasta mynd Munks þar sem hann lést við tökur hennar 21. september 1961. Hann fæddist í Kraká 1921 og dvaldist þar á uppvaxtarárum sínum. Árið 1940 fluttist hann til Varsjá en vegna gyðungauppruna síns þurfti hann að dveljast undir dulnefni meðan á stríðinu stóð. Hann tók þátt í byltingu Varsjárbúa árið 1944. Skráðist í kvikmyndaskóla 1947 og eftir að hann lauk námi hóf hann vinnu við að gera fréttaskot. Árið 1955 kom fyrsta myndin hans í fullri lengd, The Men of Blue Cross (Belkitny Krzyz). Munk er talinn ásamt Andrzej Wajda og Wojciech Has, sem einn fremsti kvikmyndahöfundur Póllands.

föstudagur, janúar 12, 2007

Night and Fog (Alan Resnais, 1955, Frakkland)

Hér er ekki um að ræða frásagnarmynd um helförina og ekki heldur um að ræða eiginlega heimildarmynd. Myndin hefst á því að svipmyndir frá eyðilögðum og yfirgefnum einangrunarbúðum í Auschwitz teknar 1955 aðeins tíu árum eftir að föngunum sem þau hýstu var hleypt úr prísund sinni. Til skiptis eru sýndar myndir frá búðunum eins og þær lytu út við gerð myndarinn og svo svipmyndir frá þeim tíma sem búðirnar voru byggðar og notarðar í sem hryllilegastan hátt.

Ólíkt mörgum helfarmyndum þá nýtir myndin sér ekki þær ekki tilfinningar sem áhorfendur oftast sína viðfangsefninu. Heldur þá er sögumaður sem dregur úr myndefninu frekar en að upphefja það. Textinn er ljóðrænn og ýtir undir að það sem í raun gerðist væri lýtt sagt með orðum eða túlkað með nokkrum myndum.

Alan Resnais tekur fyrir efni sem enn er sterkt í minni fólks og kemur fyrir í þrjátíu mínútna mynd. Þótt hún stykkli á stóru og leyfi áhorfendum að taka aftstöðu þá stendur vel við hlið heimildamynda svo sem Shoah (Claude Lanzmann, 1985) sem er rúmir níu tímar af viðtölum við fórnalömb einangrunarbúða Nasista.
The Shop on Main Street (Obchod Na Korze, Jan kadar og Elmar Klos, 1965, Tékkoslóvakía)

Myndin er í grunninn saga tveggja einstaklinga, fátæks manns og gamallar gyðinga ekkju í kringum hernám nasista á Tékkóslóvakíu í Síðari heimstyrjöldinni. Maðurinn er skipaður arýskur yfirmaður konunnar, sem er orðin gömul og heyrnardauf, og þarf að hafa umsjón með henni og litlu hnappabúðinni hennar. Manninum er best lýst sem hálfgerðum aula og vill hann konunni vel en þegar inn í myndina fléttast mágur mannsins sem er í nasistaflokknum og síhert tök nasista í Tékkóslóvakíu þá þarf maðurinn að finna leið til að vernda gömlu konuna.

Myndin hlaut fádæma lof og vann meðal annars óskarsverðlaun sem besta mynd og var Ida Kaminska tilnefnd fyrir bestan leik fyrir hlutverk gömlu konunnar. Myndin var gerð árið 1965 í Sovétríkjunum á hápunkti kommúnískrar stjórnar. Hún endurspeglar vel yfirráð kúgunarstjórnar nasista og samband fólks á tímum þegar gyðingar og aríar áttu ekki að eiga samneyti.

Annar leikstjóri myndarinnar, Jan Kadar, er gyðingur og var sendur í vinnubúðir nasista í Síðari heimsstyrjöldinni. Myndin er honum verulega hjartfólgin þar sem foreldrar hans og systir dóu öll í Auschwitz, en þrátt fyrir að vera svo nærri efni myndarinnar tekst Kadar að halda sig fjarri dómum og einbeita sér að sambandi aðalpersónanna og vináttu þeirra.

föstudagur, janúar 05, 2007

Project 'A' part II ('A' gai waak juk jaap, Jackie Chan, 1987)

Ef þessi mynd dugir ekki til að sanna hversu langt Jackie Chan er tilbúinn að ganga til að skemmta áhorfendum, jafnvel á kostnað eigin heilsu, gerir það ekkert. Þetta er afar óbeint framhald Project 'A' (1983) sem fjallaði um útsendarann Dragon Ma og bardaga hans gegn sjóræningjum. Þessi fjallar um sömu persónu sem nú berst gegn glæpaflokkum á landi, en á sama tíma leita gamlir andstæðingar hans að honum. Þetta er sagan og söguþráðurinn í heild sinni. Slíkar frásagnartakmarkanir væru yfirleitt galli en hér þarf ekkert meira. Þetta er tilgerðarlaus skemmtun sem þykist ekki vera neitt meira en hún er: kung fu gamanmynd sem treystir á húmor, einfaldleika og svakaleg áhætuuatriði.

Þessi mynd þykir oft betri en hin fyrri sem verður að teljast óvenjulegt fyrir mynd af þessu tagi. Hún fellur í sígilda gildru framhaldsmyndarinnar með því að hafa allt svipað og áður nema miklu stærra í sniðum. Hér virkar þetta, þvert á það sem maður á von á, og það hlýtur að vera vegna þess að myndin reynir ekki að vera neitt annað en hún er.

Jackie Chan sameinar helstu kosti þekktra kung fu kappa eins og Bruce Lee og gamanleikara þögla tímans eins og Buster Keaton og Harold Lloyd (og vitnar grimmt í báða). Hann verður seint talinn sérlega merkilegur leikari en fáir ef nokkrir leggja jafn mikla vinnu í myndir sínar og hann. Það er nærri ekkert bein sem hann hefur ekki brotið og hann harðneitar að láta aðra sjá um sín áhættuatriði. Það er óhætt að eigna honum myndir hans því hann er yfirframleiðandi, leikstjóri, aðalleikari, sér oftar en ekki um tónlistina að hluta og fylgist með hverju skrefi framleiðslunnar. Það er kannski helsti kostur hans að hann hefur augljósan húmor fyrir sér því hann er einn af upphafsmönnum þess að sýna mistakaskot í lok myndar og hlífir sér ekki í þeim.
Once Upon a Time in China 2 (Wong Fei Hung ji yi: Naam yi dong ji keung, Tsui Hark, 1992)

Myndin er augljóslega önnur myndin í flokki mynda um kínverku alþýðuhetjuna Wong Fei Hung, sem lifði á árunum 1847-1924 og var virtur læknir ekki síður en bardagamaður. Það eru til langt yfir hundrað myndir um hann og eru margar þeirra meðal virtustu og þekktustu kung fu mynda sögunnar. Þessi myndaflokkur næði samanlagt sex myndum og eru fyrstu þrjár allar mjög góðar en hinar síðri.

Tsui Hark er einn afkastamesti kvikmyndagerðarmaður Hong Kong fyrr og síðar. Hann hefur bæði leikstýrt eða framleitt margar af merkari myndum Hong Kong undanfarna tvo áratugi og nægir að nefna samstarf hans við menn eins og John Woo, Ringo Lam og Woo-Ping Yuen. Þegar Once Upon a Time in China varð alþjóðleg risamynd hóf hann strax undirbúning að annari mynd og gerði að minnsta kosti jafngóða og að margra dómi betri mynd. Ólíkt hefðbundnari myndum um Wong Fei Hung er þetta ekki bara hasar- eða gamanmynd, heldur líka nokkur þjóðfélagsrýni og óneitanlega nokkuð pólitísk. Það er kafað töluvert ofan í gömul kínversk gildi og bæði skoðaðar þær breytingar sem hafa orðið á þeim með tilkomu erlendra siða og sjálfstæðis.

En þetta er ekki þung dramatísk mynd þó undir niðri sé naflaskoðun. Sögufléttan er flókin og tekur sífelldum breytingum og hasarinn er mikill. Eins og og oft vill verða var mikið lagt upp úr því að hafa bardagasenurnar að minnsta kosti jafnstórar og í fyrri myndinni og helst miklu stærri. Það tekst svo um munar og er lokabardaginn milli Jet Li og Donnie Yen með þeim svakalegri sem sést hafa.