fimmtudagur, apríl 26, 2007


Eyes Without a Face (Les Yeux Sans Visage, Georges Franju, 1959, Frakkland)

Lýtalæknirinn Dr. Génessier og dóttir hans lenda í árekstri og skaddast hún mikið í andliti. Hann telur sig eiga sök á slysinu og missir vitið. Hann hefst við að ræna stúlkum til að að framkvæma aðgerð og þannig endugera fyrri fegurð dóttur sinnar.

Þessi mynd á margt sameiginlegt með tveimur myndum kinofíls er voru sýndar fyrr á þessu ári. Annars vegar þá vinnur hún með glápþörf og staðsetningu áhofendans í fótsporum morðingjans líkt í Peeping Tom (frá Raðmorðingjakvöldinu). Hins vegar þá höfum við hér kolgeggjaðan lækni með áráttu á fegurð sem minnir óneitanlega á Flesh for Frankenstein (frá hinu geisivinsæla Sæta og Sóðalega kvöldi). Myndin er þó mun meiri blanda hrollvekju og ævintýri. Hún skiptir á milli sadisma og mikillar mildi sem kemur áhorfendanum ónotalega í hugarheim Dr. Génessier. Hún beitir stíl sem minnir á súrrealisma þögla skeiðisins í Frakklandi og er meðvituð um aðrar framústefnugreinar sem og leggur nýjan veg í gerð hrollvekja Kvikmyndatakan er fáguð og vel slípuð og setur ljóðrænan svip á þann óskapnað sem borinn er fyrir áhorfandann, sem þegar á eftitt á erfitt með að dæma verknaðinn út frá sjónarhorni sínu.

Myndin er byggð á skáldsögu Pierre Boileau sem hafði áhrif með verkum sínum á myndir eins og Les Dioboliques og Vertigo. Myndir Georges Franju innihalda ýmsa afar truflandi ramma og má þar nefna sláturhúsið í Le Sang des Betes, flóttinn um hina brennandi akra í La Tete Contre les Murs, yfirvofandi dauða í skógum Therese Desqueyoux ásamt ásýnd Christinu í Eyes Without a Face. Má skoða þessa blöndu Franju hrollvekju og fantasíu sem einskonar martraðasýn á veruleikann og kemur jafnvel fram í heimildarmyndum hans svo sem Hotel des Invalides. Myndin hefur einnig verið titluð, Horror Chamber of Dr. Faustus í dreyfingu vestanhafs.
Vargtimmen (Ingmar Bergman, 1968, Svíþjóð)

Johan Borg (Max Von Sydow) er málari sem fær martraðir um djöfla og drýla sem ásækja hann, svo ágengar verða martraðirnar að hann hættir að greina á milli drauma og veruleika. Dag nokkurn er Borg boðið að sækja velgjörðarmenn sína heim í kastala Baron von Merken. Borg þýðist boðið, en þegar í kastalann er komið sér hann gestgjafa sína ekki sem mennska heldur sem verur næturinnar, sem vantar bráð til að leika sér að. Fyrir sínar ómennsku sadísku hvatir bjóða þau honum að skemmta sér með þeim, en aðeins sem hirðfífl til að hafa að háði og spotti. En eru þeir hluti af þeirri stöðugu martröð sem Borg fær eða raunveruleg illmenni?

Vargtimmen átti upprunalega að vera annar hluti einnar myndar sem bar titilinn The Cannibals, en leikstjórinn, Ingmar Bergmann, skipti henni í tvo hluta, Vargtimmen og Persona. Báðar eru þær afar persónulegar myndir fyrir leikstjórann, en í þessari veltir Bergman upp spurningunni um listamanninn og hans eilífu baráttu og ótta við sjálfan sig og áhorfendur sína.

Myndin er sú eina eftir leikstjórann sem kalla má hrollvekju og það er hún svo sannarlega. Með draumkenndum veruleika og stöðugri ógn, skyggnumst við inn í heim vænissjúks listamanns, persónur myndarinanr vita allt um hans dýpstu kenndir og þekkja hvert tangur og tetur af honum, sem gefur vísbendingu um það hvar myndin gerist. Bergmann beitir kvikmyndamiðlinum á snilldarlegan hátt, bæði til að skapa spennu og ógn, sem og að gagnrýna hið predatoríska samband áhorfenda við listamann á ystu nöf.

föstudagur, apríl 20, 2007

Mad Max (George Miller, 1979, Ástralía)

Í eyðimörkum Ástralíu munu í framtíðinni skúrkagengi ráða ríkjum og fara um rænandi og ruplandi af hinum fáu heiðvirðu borgurum sem enn halda sig á þessum slóðum. Eina mótvægið við þá er hin illa skipulagða lögregla sem reynir hvað hún getur að halda uppi röð og reglu án árangurs. Þegar lögreglumaðurinn, Max Rockatansky, veldur dauða höfuðpaurs eyðimerkurklíkunnar eru kona hans og barn drepin í hefndarskyni. Án miskunnar eltir Max uppi þá skúrka sem ábyrgð báru á morðinu og með æsilegum bílaeltingaleikjum og skotbardögum reynir hann að koma réttlætinu á framfæri.

Myndin er sú fyrsta í þríleik um Max og var lengi vel sú kvikmynd sem skilaði mestum hagnaði miðað við framleiðslukostnað í heiminum, þar til að Blair Witch Project bætti um betur. Framleiðsluféð var svo takmarkað að leikstjórinn fórnaði eigin bifreið í áhættuatriði myndarinnar. Hún naut mikilla vinsælda í Ástralíu og síðar í Bandaríkjunum þar sem hún var talsett á ,,Amerísku” en dreifingaraðliðar þar töldu að ástralskan væri áhorfendum illskiljanleg. Mel Gibson var óþekktur leikari þegar hann hreppti hlutverk Max, aðeins 23 ára gamall. Hann hafði lent í barslagsmálum kvöldið fyrir leikprufuna og mætti í hana blár og marinn, sem varð til þess að hann smellpassaði inn í hlutverk andhetjunnar Max.

Mad Max er hefndarmynd af fyrstu gerð, yfirfull af bílaeltingarleikjum, skotbardögum, slagsmálum og miklum hasar. Leikstjóri hennar, George Miller, var starfandi sem læknir á neyðarmóttöku þar til hann gerði Mad Max og nýtti sér óspart reynsluna þaðan við útfærslur á blóðsúthellingum myndarinnar. Hún er því hrá og hröð hasarmynd með hinum unga Mel Gibson í hlutverki andhetjunnar og glæðir hann hana stíl sem leðurtöffarar eyðimerkurinnar þurfa að hafa.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

The Last Wave (Peter Weir, 1977, Ástralía)

David er lögfræðingur, jarðbundinn efahyggjumaður, sem tekur að sér að verja nokkra frumbyggja kærða fyrir morð á öðrum frumbyggja. Þeir virðast hvergi hræddir um líf sitt í höndum réttarkerfis hvíta mannsins en skelfingulostnir samt sem áður. Furðuleg hræðsla þeirra vekur áhuga David og hann síðan steypist inn í dularfullan heim forspá og mýtu.

Last Wave er rannsóknarsaga á grundvelli ragnaraka. Líkt og allar aðrar myndir Peter Weir þá ögrar Last Wave hinum skynsömu mörkum raunveruleikans. Weir segist hafa fengið hugmyndina þegar hann spurði sjálfan sig; „What if someone with a very pragmatic approach to life experienced a premonition?“. Myndin tekst á við torræði innfædda svarta mannsins undir veldi aðflutta hvíta mannsins, sem taka áhættu með að hunsa andleg tengsl frumbyggjanna. Myndin er sjónræn nautn og leikurinn stórkostlegur, alveg frá fölrar en kröftugrar ringlunar Chamberlains til óhagganlegs og rólegs höfðingjans Charlie. Þótt myndin snerti á mörgum pólitískum og andlegum þemum þá neitar myndun manni um nokkra lausn.

Peter Weir er einn þeirra leiktjóra sem mynduðu hina svokölluðu ástralsku nýbylgju ásamt Fred Schepisi, Bruce Beresford og fleirum. Frásagnarefni Weir í myndum sínum er barátta mannsins við sitt eigið umhverfi, eigin sköpuðu örlög og samfélög og sem er hægt að sjá í Picnic at Hanging Rock, Witness, Mosquito Coast og Truman Show.

föstudagur, apríl 13, 2007

Memories of Underdevelopment (Memorias del subdesarrollo, Tomás Gutierrez Alea, 1968, Kúba)

Sergio, er ríkur miðstéttarbúi sem þráir frama við bókaskrif, ákveður að dvelja áfram í Kúbu þótt eiginkona hans og vinir flýi til Miami. Árið er 1961 og gerist stuttu eftir atvikið við Svínaflóa. og fylgir lífi Sergio, sambandi hans við kærustur sínar og hversdagslífið í óþroskuðu landi.

Myndinn er karakterstúdía og skoðar lífið við óreiðukenndar aðstæður meðan samfélagsbreytingar eiga sér stað. Sögð með hlutlægu sjónarhorni með notkun brotakenndri frásögn til að líkja eftir minningum. Myndin er byggð á bók Edmundo Desnoes og blandar saman heimildamynd, fantasíu og skáldsögu til að koma áhorfendanum í huga manns sem er staddur mitt á milli heims kapitalista og byltingarsinna. Hún er skotin í svarthvítu með handhægum 16 mm tökuvélum og notar vel sviðsett atriði og klippingu til að búa til raunhæfan veruleika og heldur síðan endanum opnum líkt og er í lífinu. Myndin er gagnrýni á hið byltingarkennda samfélag en inniheldur einnig mikla sjáldfrýni með notkun vægum listrænum eiginleikum.

Myndin varð fljótt vinsæl um allan heim eftir að hafa sveipað að sér verðlaunum á Havana Film Festival og er líklega þekktasta verk Gutierrez Alea, önnur verk eru svo sem Muerte de un burócrata, La,Última cena, La og nær nútímanum Fresa y chocolate and Guantanamera. Edmundo er að vinna að framhaldi að bók sinni þar sem Sergio er kominn til Miami og einnig verið að gera mynd eftir henni sem er áætluð til útgáfi nú í ár. Myndin mun heita Memories of Development (Memorias del desarrollo).

föstudagur, mars 30, 2007

La Belle et la Bete (Jean Cocteau, 1946, Frakkland)

Flest allir kannast nú við ævintýrið um Fríðu og Dýrið og þá líklegast í útgáfu Disney. Hér tekst Cocteau að gera tillfinningar Fríðu og Dýrsins mun dýpri og eiginlegri og þó að samband þeirra eigi ekki von um að fullkomnast þá er ástin raunveruleg. Engin myndarlegur prins breytir sambandi þeirra til þess betra er Dýrið umbreytist í lokin og Greta Garbo jafnvel hrópaði að lokinni frumsýingu myndarinna „Give me back my beast!“.

Cocteau var vel að sér í listasögu og framúrstefnulistgreinum og má sjá margar vitnanir í málverk eftir listamenn svo sem Fusili og Vermeer í stórkostlegum sviðsmyndum Christian Bérard. Cocteau dróg úr því að tökumaðurinn Alekan notaði tæknilegar tökur og leyfa sviðsmyndinni að njóta sín og við það eflist sá ævintýraheimur sem dreginn er fyrir okkur. Myndinn hefst á orðunum „Once upon a time…“ og er síðan haldið grátbroslegri tilfinningu með barnslegrí sýn á veruleikanum. Skáldið Paul Éluard sagði að til að skilja myndina yrði maður að elska hund sinn meir en bíl sinn.

Jean Cocteau taldi sjálfan sig ávallt vera ljóðskáld en starfaði mikið í öðrum miðlum. Hann meðal annars skrifaði skáldsögur og leiktrit, teiknaði og málaði, leikstýrði kvikmyndum og ballet ásamt því að hanna sviðsmyndir. Hann gerði þríleik þar sem hann skoðar líf listamannsins, Le Sang d'un poète, Le Orphée og Le Testament d'Orphée. Myndinar endurspegla Cocteau sem ljóðskald og færni hans á svið framúrstenfulistum svo sem súrrealisma er með einsdæmum. Hann réð leikarann og ástmann sinn Jean Marais (Dýrið) í margar sinna mynda og hélt engu leyndu um samkynheigð sína og skyggði það ekkert á snildargáfu hans. Þrátt fyrir stutta dvöl í kvikmyndaiðnaðnum þá skyldi hann eftir sig sex kvikmyndir og nokkur handrtit til viðbótar og má þá nefna Les Enfants terribles eftir Jean-Pierre Melville. Cocteau fannst margir ekki meta La Belle et la Bete rétt og skrifaði því svar sem var útgefið með sýningarbæklingnum á frumsýningu myndarinnar í Bandaríkjunum (svarið má finna hér). Hins vegar segir hann næstum áratug síðar í viðtali í Newsweek (16. maí 1955) „Asking an artist to talk about his work is like asking a plant to discuss horticulture.“.

fimmtudagur, mars 29, 2007

A Matter of Life and Death (Michael Powell og Emeric Pressburger, 1946, Bretland)

Á leið heim úr sprengjuárás í maí 1945 verður flugvél Peter Carter fyrir tjóni og hrapar. Carter kemur áhöfninni örugglega út í fallhlífum, en ákveður sjálfur að farast með vélinni. Hann sest í flugstjórasætið og tilkynnir flugeftirlitinu stöðuna, honum svarar ung kona sem Carter hrífst svo af að hann ákveður að stökkva úr vélinni til að reyna að bjarga sér. Honum skolar á land og rankar við sér og heldur af stað til að finna konuna í talstöðinni. Á meðan er upplausn í himnaríki, Peter Carter, sem átti að deyja fannst ekki og var þar af leiðandi ekki hægt að enda jarðneska tilveru hans á réttum tíma. Starfsmaður himnaríkis númer 71 er sendur til að tilkynna Carter stöðuna og sækja hann, en þá er hann búinn að finna stúlkuna og orðinn ástfanginn.

Þessi fallega mynd um gildi ástarinnar og hið góða í manninum, var upphaflega ætluð til að bæta samband Bretlands og Bandaríkjanna eftir stríð. Hún endaði hins vegar sem svo mikið meira, himnesk fyndni um lífið. Hún gerist hvort tveggja í svarthvítu himnaríki og á litríkri (technicolor) jörðu og með leikmyndarhönnun Alfred Junge verða skiptingarnar á milli fljótandi og áreynslulausar.

Leikstjórar myndarinnar Michael Powell og Emeric Pressburger áttu í afar farsælu samstarfi í 19 myndum og teljast með mikilvægustu leikstjórum breskrar kvikmyndasögu. Samstarf þeirra var gat meðal annars af sér myndir eins og The Red Shoes (1948) gerða eftir ævintýri H.C. Andersen og The Life and Death of Colonel Blimp (1943). Powell leikstýrði síðar mynd sem kinofíll sýndi fyrr á misserinu, Peeping Tom (1960).

föstudagur, mars 23, 2007



The Thin Blue Line (Errol Morris, 1988, USA)

Randall Adams verður fyrir því óláni að verða bensínlaus á flakki sínu. Hann þiggur far með sextán ára strák, David Harris, og eyða þeir deginum saman. Þeir drekka smá bjór, reykja gras og skella sér síðan í bílabíó. Hér fer síðan frásögn þeirra á áframhaldandi atburðum að stangast þá. Randall segist fegnið David til að skutla sér heim á hótelið sem hann gisti á með bróður sínum. David hinsvega vill meina að Randall og hann hafi haldið áfram að rúnta og verið síðan stövaðir af lögreglunni. Samkvæmt David á Randall að hafa síðan myrt annan lögregluþjóninn og síðan brunað af stað. Randall ver dæmdur fyrir morðið og skoðar myndin þá lörgreglurannsókn sem kom honum í steininn.

Myndin notar sviðsetningu atburða ásamt viðtölum og frásögnum vitna. Hún ekki aðeins gangýnir rannsóknina með orðum heldur einnig myndrænt séð með klippingu og því að hægja á sýningarhraða. Þessi mynd Morris átti stóran þátt í að fá dóm Randall afturkallaðann og hefur Randall síðan þá verið baráttumaður gegn dauðrefsingu. David Harris síðar tekinn af lífi fyrir morð á Mark Hays.

Morris fékk ekki mikla athygli innan kvimyndamenningarinnar þó að hún hafi verið áhrifarík í lífi Randall Adams en síðar hlaut hann Óskarinn fyrir The Fog of War árið 2004 og einnig tilnefndur fyrir leikstjórn hennar hjá Directors Guild of America.