Millistéttarfjölskylda liggur í molum. Faðirinn og sonurinn eru báðir lagðir í einelti, annar í vinnunni og hinn í skólanum. Móðirin er orðin háð lyfjum vegna verkja og skorts á nánum fjölskyldutengslum. Dóttirin er svo gott sem flúin og lögst í vændi. Og þá kemur inn í líf þeirra algjörlega ókunnugur maður sem er kallaður Q, sem beitir þau ofbeldi og setur líf þeirra í skorðum. Tilgangur hans virðist hins vegar vera að endurreisa fjölskylduna en eyðileggja hana. Þetta er mjög öfgakennd mynd, gróf og hreinlega dulítið sjúk. En hún hefur boðskap og tilgang sem er mikilvægur í nútímasamfélaginu.
Myndin var gerð fyrir nærri ekkert og á stafrænu formi, sem eykur á tilfinningu þess að við séum að horfa á beinar upptökur af atburðum fremur en sviðsetningar. Þessi gríðarlega ögrandi mynd gæti talist meistarastykki Miikes. Hann gerir ekki lítið úr eða grín að fjölskyldum, heldur lýsir áhyggjum (á öfgakenndan hátt) á hvert klassíska fjölskyldubyggingin sé að stefna, sérstaklega í Japan 21. aldarinnar.
Takashi Miike er vinnudýr. Hann gerir að meðaltali um fimm myndir á ári og flestar eru í besta falli umdeilanlegar, sérstaklega fyrir ofbeldi og öfgar. Til að telja til nokkrar af þekktari myndum hans mætti nefna Audition, Ichi the Killer, Happiness of the Katakuris og Dead or Alive. Hann er að ljúka næstu mynd sinni, sem er gerð á ensku og meðal leikara er góðvinur hans, Quentin Tarantino. Myndin, Sukiyaki Western Django, gerist í Japan á miðöldum og ku minna á ekki ómerkari myndir en Yojimbo, A Fistful of Dollars og Django (Til gamans mætti geta að Kinofíll sýndi Django í nóvember síðastliðnum).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli