"Bloody" Sam Peckinpah var ekki og mun aldrei verða þekktur fyrir að fara fínt í hlutina. Þetta er hiklaust hans umdeildasta mynd og sú sem klýfur fólk mest í afstöðu sinni og er þá mikið sagt. Hann ætlaði sér að gera mynd um ofbeldi, orsakir þess, virkni og afleiðingar... Ofbeldi eins og það er: Missir, sársauki og eyðilegging á eðlilegum tengslum milli fólks, samfélags og sambanda. Umfram allt ætlaði hann sér að fjalla um ofbeldið sem karlmenn sýna konum á líkamlegan, kynferðislegan og félagslegan hátt.
Útkoman varð Straw Dogs og það er undir hverjum og einum komið að úrskurða hvort Sam Peckinpah tókst ætlunarverk sitt.
Sagan fylgir óframfærnum stærðfræðing, leiknum af Dustin Hoffman, sem er fluttur ásamt enskri eiginkonu sinni á æskuslóðir hennar við smáþorp í Norður-Englandi. Þorpsbúar líta á þau sem vafasöm, aðhlátursefni eða sýna þeim hreinlega fyrirlitningu. Spenna byggist upp þar til tveim sprengipunktum er náð í frægustu, umdeildustu, áhrifamestu og tvíræðustu köflum myndarinnar. Hér er betra að sjá sjálfur en lesa annara manna lýsingar, en þó skal sagt að þessar senur eru mikilvægar en erfiðar áhorfs.
Sam Peckinpah sagði eftir að myndin fór í sýningu og fékk hörð viðbrögð að honum hefði mistekist ætlunarverk sitt. Boðskapurinn hefði glatast og að notkun hans á afar raunsæu ofbeldi til að sýna hrylling þess hefði farið fram hjá fólki. Myndin hefur all tíð legið undir ámæli fyrir kvenfyrirlitningu og hana mætti lesa á þann hátt, en hún hefur ekki síður verið lesin sem óþægileg áminning þess að konur þurfa að þola meira og harðara ofbeldi en karlar. En hvort sem honum tókst eða tókst ekki að vekja fólk til umhugsunar er ekki hægt að neita því að hér er á ferðinni meistaraleg kvikmyndagerð. Myndataka, leikur, handrit, frásögn, tónlist og sér í lagi klipping eru öll eins og best verður á kosið. Enn ein sönnun þess að þó Peckinpah verði að eilífu umdeildur maður, þá er hann einn merkasti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli