An Actor’s Revenge ( Yukinojo Henge, Kon Ichikawa, 1963, Japan)
Það gerist ekki oft að maður geti sagt að mynd græði á því að leikstjórinn vildi alls ekki gera hana en hér á það svo sannarlega við. Hann var í ónáð hjá stúdíóinu (Daiei) eftir að tvær af síðustu myndum hans höfðu komið út í tapi. Honum var skipað að gera þessa mynd og gat ekki neitað. Myndin er gerð til að halda upp á þrjú hundruðustu mynd leikarans Kazuo Hasegawa og er endurgerð á vinsælustu mynd hans, þar sem hann lék tvö hlutverk: Annars Kabuki leikari sem er alltaf í kvengervi og hins vegar þjófur sem aðstoðar leikarann við að hefna foreldra sinna. Þetta er ævintýramynd með miklum hasar. Þegar Hasegawa lék hlutverkin upphaflega var hann 27 ára. Nú var hann 55 ára.
Í stað þess að tóna niður fáránleika og óraunsæi sögunnar ákvað Ichikawa að gera grín að öllu saman og leikur sér að leikræni og gervimennsku verksins og bjó í rauninni til leikna teiknimynd, enda hóf hann feril sinn sem Manga teiknari. Hann skýtur inn hugsanabólum, afar gervilegum leikmyndum, furðulegri tónlist og þar fram eftir götunum. Auk þess gerir hann mikið úr áhugaverðri kynjaframsetningu myndarinnar og má nefna senu þar sem Hasegawa sem maður sér sjálfan sig sem sem mann að leika konu að stunda kynlíf með konu.
Kon Ichikawa er ennþá á lífi og starfandi. Hann er óneitanlega hæfileikaríkur kvikmyndagerðarmaður og hefur gert töluvert af merkilegum myndum af ýmsu tagi. Hér verður að minnast á afar húmanískar, óþægilega raunsæjar stríðsmyndir eins og The Burmese Harp og Fires on the Plain og hinu stórmerku heimildarmynd Tokyo Olympiad, sem gjörbreytti hvernig íþróttaefni er tekið upp. Hins vegar hefur hann reynt mistækur og það er ekki með góðri samvisku hægt að ráðleggja allar myndir hans.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli