fimmtudagur, apríl 26, 2007

Vargtimmen (Ingmar Bergman, 1968, Svíþjóð)

Johan Borg (Max Von Sydow) er málari sem fær martraðir um djöfla og drýla sem ásækja hann, svo ágengar verða martraðirnar að hann hættir að greina á milli drauma og veruleika. Dag nokkurn er Borg boðið að sækja velgjörðarmenn sína heim í kastala Baron von Merken. Borg þýðist boðið, en þegar í kastalann er komið sér hann gestgjafa sína ekki sem mennska heldur sem verur næturinnar, sem vantar bráð til að leika sér að. Fyrir sínar ómennsku sadísku hvatir bjóða þau honum að skemmta sér með þeim, en aðeins sem hirðfífl til að hafa að háði og spotti. En eru þeir hluti af þeirri stöðugu martröð sem Borg fær eða raunveruleg illmenni?

Vargtimmen átti upprunalega að vera annar hluti einnar myndar sem bar titilinn The Cannibals, en leikstjórinn, Ingmar Bergmann, skipti henni í tvo hluta, Vargtimmen og Persona. Báðar eru þær afar persónulegar myndir fyrir leikstjórann, en í þessari veltir Bergman upp spurningunni um listamanninn og hans eilífu baráttu og ótta við sjálfan sig og áhorfendur sína.

Myndin er sú eina eftir leikstjórann sem kalla má hrollvekju og það er hún svo sannarlega. Með draumkenndum veruleika og stöðugri ógn, skyggnumst við inn í heim vænissjúks listamanns, persónur myndarinanr vita allt um hans dýpstu kenndir og þekkja hvert tangur og tetur af honum, sem gefur vísbendingu um það hvar myndin gerist. Bergmann beitir kvikmyndamiðlinum á snilldarlegan hátt, bæði til að skapa spennu og ógn, sem og að gagnrýna hið predatoríska samband áhorfenda við listamann á ystu nöf.

Engin ummæli: