föstudagur, apríl 20, 2007

Mad Max (George Miller, 1979, Ástralía)

Í eyðimörkum Ástralíu munu í framtíðinni skúrkagengi ráða ríkjum og fara um rænandi og ruplandi af hinum fáu heiðvirðu borgurum sem enn halda sig á þessum slóðum. Eina mótvægið við þá er hin illa skipulagða lögregla sem reynir hvað hún getur að halda uppi röð og reglu án árangurs. Þegar lögreglumaðurinn, Max Rockatansky, veldur dauða höfuðpaurs eyðimerkurklíkunnar eru kona hans og barn drepin í hefndarskyni. Án miskunnar eltir Max uppi þá skúrka sem ábyrgð báru á morðinu og með æsilegum bílaeltingaleikjum og skotbardögum reynir hann að koma réttlætinu á framfæri.

Myndin er sú fyrsta í þríleik um Max og var lengi vel sú kvikmynd sem skilaði mestum hagnaði miðað við framleiðslukostnað í heiminum, þar til að Blair Witch Project bætti um betur. Framleiðsluféð var svo takmarkað að leikstjórinn fórnaði eigin bifreið í áhættuatriði myndarinnar. Hún naut mikilla vinsælda í Ástralíu og síðar í Bandaríkjunum þar sem hún var talsett á ,,Amerísku” en dreifingaraðliðar þar töldu að ástralskan væri áhorfendum illskiljanleg. Mel Gibson var óþekktur leikari þegar hann hreppti hlutverk Max, aðeins 23 ára gamall. Hann hafði lent í barslagsmálum kvöldið fyrir leikprufuna og mætti í hana blár og marinn, sem varð til þess að hann smellpassaði inn í hlutverk andhetjunnar Max.

Mad Max er hefndarmynd af fyrstu gerð, yfirfull af bílaeltingarleikjum, skotbardögum, slagsmálum og miklum hasar. Leikstjóri hennar, George Miller, var starfandi sem læknir á neyðarmóttöku þar til hann gerði Mad Max og nýtti sér óspart reynsluna þaðan við útfærslur á blóðsúthellingum myndarinnar. Hún er því hrá og hröð hasarmynd með hinum unga Mel Gibson í hlutverki andhetjunnar og glæðir hann hana stíl sem leðurtöffarar eyðimerkurinnar þurfa að hafa.

Engin ummæli: