M (Fritz Lang, 1931, Þýskalandi)
Undirtitill myndar Fritz Lang útleggst sem Borg Leitar að Morðingja (Ein Stadt sucht einen Mörder), til að byrja með sjáum við morðingjann ekki en nærvera hans er mögnuð upp með áráttukenndu flauti á Hall of the Mountain King eftir Edvard Grieg. Myndin segir frá skelfingu lostnum íbúum borgar sem hefur orðið fyrir barðinu á barnafjöldamorðingja og einingu þeirra við að handsama hann. Lögreglan er með góðar gætur á götunni þar sem skelfing íbúanna verður til þess að hver sem gefur sig á tal við ókunnugt barn er ákærður sem morðinginn. Skipulögð glæpastarfsemi lendir í lamasessi vegna aukinnar löggæslu og skipuleggja glæpaforingjarnir meira að segja leit að morðingjanum. Þeir nota flækinga og útigangsmenn til að hafa auga með götum borgarinnar og láta vita af allri einkennilegri hegðun sem þeir verða varir við. Borgin er sameinuð í leit að morðingjanum en greinir á um refsinguna, skelfingu lostnir borgararnir vilja hefnd án laga, á meðan lögreglan vill réttarhöld. Eini sannleikurinn er að morðinginn er merktur með hvítu M.
Myndin var gerð undir lok Weimar lýðveldisins í Þýskalandi og sýnir, rétt eins og fyrri mynd Langs, Metropolis, skiptingu borgarinnar milli ríkra og fátækra, yfir- og undirheimanna sem eru neyddir til að komast að samkomulagi. Hún endurspeglar vel efnahagslega misskiptingu og þá miklu fátækt sem var í Þýskalandi á þessum tíma. Myndin var gerð í upphafi hljóðmyndanna, þar sem þróun á hljóði í kvikmyndum var afar misjöfn. Í Evrópu gerðu menn tilraunir með hljóð sem spennumagnara á meðan áherslan í Ameríku (Hollywood) var lögð á söngatriði og tónlist. Í M er flaut morðingjans notað til að magna upp spennu, og ásamt skotum af yfirgefnum bolta eða týndri blöðru þá gefur það afar skelfilega sýn á morðin án þess að sýna meira.
Fritz Lang telst einn af leikstjórum þýska expressionismans á 3. áratugnum og mynd hans Metropolis, sem gekk illa þegar hún kom út, er nú talin eitt af meistaverkum þögla tímabilsins, ásamt öðrum myndum hans, m.a.: Die Niebelungen, Dr Mabuse og Spione. Samkvæmt Lang þá var honum boðið að gerast leikstjóri Þriðja ríkisins, en hann hafnaði því, Leni Riefenstahl tók hins vegar tilboðinu, en Lang fluttist til Bandaríkjanna og hélt áfram farsælum ferli sínum þar.
fimmtudagur, febrúar 15, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli