

Myndin var gerð undir lok Weimar lýðveldisins í Þýskalandi og sýnir, rétt eins og fyrri mynd Langs, Metropolis, skiptingu borgarinnar milli ríkra og fátækra, yfir- og undirheimanna sem eru neyddir til að komast að samkomulagi. Hún endurspeglar vel efnahagslega misskiptingu og þá miklu fátækt sem var í Þýskalandi á þessum tíma. Myndin var gerð í upphafi hljóðmyndanna, þar sem þróun á hljóði í kvikmyndum var afar misjöfn. Í Evrópu gerðu menn tilraunir með hljóð sem spennumagnara á meðan áherslan í Ameríku (Hollywood) var lögð á söngatriði og tónlist. Í M er flaut morðingjans notað til að magna upp spennu, og ásamt skotum af yfirgefnum bolta eða týndri blöðru þá gefur það afar skelfilega sýn á morðin án þess að sýna meira.
Fritz Lang telst einn af leikstjórum þýska expressionismans á 3. áratugnum og mynd hans Metropolis, sem gekk illa þegar hún kom út, er nú talin eitt af meistaverkum þögla tímabilsins, ásamt öðrum myndum hans, m.a.: Die Niebelungen, Dr Mabuse og Spione. Samkvæmt Lang þá var honum boðið að gerast leikstjóri Þriðja ríkisins, en hann hafnaði því, Leni Riefenstahl tók hins vegar tilboðinu, en Lang fluttist til Bandaríkjanna og hélt áfram farsælum ferli sínum þar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli