Häxan (Benjamin Christersen, 1923, Danmörk/Svíþjóð)
Hefðbundna sögu er erfitt að finna í kvikmyndinni Häxan , en hún er byggð upp með skiptingu í þrjá kafla. Sá fyrsti kynnir skoðanir miðaldamenninga á útlit djöfla og norna, annar sýnir með röð stuttra atriða hjátrú, sögusagnir og skoðanir miðaldasamfélagsins á göldrum og nornum, sá þriðji er löng saga konu sem er ásökuð um galdra af fjölskyldu deyjandi manns og sýnir misskilning og vanþekkingu á geðsjúkdómum tengingu þeirra við galdra.
Það er nánast ómögulegt að skilgreina Häxan í sérstaka kvikmyndahefð, nema hugsanlega framúrstefnu. Hún er oft stimpluð heimildarmynd en aftur á móti notar hún mismunandi kvikmyndalegar nálganir til að sýna viðfangsefni sitt, galdra og djöfladýrkun frá forn Persíu til nútíma myndarinnar, og brýtur og beygir reglur heimildarmyndarinnar. Í sviðsettum atriðum sýnir leikstjórinn áhorfendurm allar þær skelfilegu ímyndir sem hann gat grafið upp úr sögulegum heimildum sínum og blandar hann oft staðreyndum við tilbúning. Og þar sem heimildarmyndin var ekki skilmerkilega skilgreind á þeim tíma er myndin var gerð þá er hún jafnvel enn óskilgreinanlegri í ákveðna kvikmyndagrein.
En Häxan stendur á eigin fótum sem sjónrænt hrífandi og ógnvekjandi mynd þar sem næmni Christersen fyrir umhverfi (mise en scene) skapar drunga með ógnvekjandi undirtón í lýsingu, leikmunum og sviðsetningu. Áhrifa myndarinnar gætir í kvikmyndum á borð við Texas Chainsaw Murderer (1974) þar sem leikmunir og bakgrunnur umlykja áhorfandann möguleikanum á ofbeldi en einnig er myndin fyrirrennari andsetningarmynda eins og The Exorcist (1973).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli