fimmtudagur, janúar 18, 2007

Pink Flamingos (John Waters, 1972, USA)

Divine ber (með stolti) titilinn „viðurstyggilegasta manneskjan á lífi“ og býr í hjólhýsi sínu í skógarjaðri undir dulnefninu Babs Johnson. (Hér skal nefna að Divine er í raun u.þ.b. 150 kg karlmaður að nafni Harris Glenn Millstead). Þar býr hún ásamt egg-elskandi móður sinni Edie, hippa syni sínum Crackers og förunauti Cotton. Parið Connie og Raymond Marble eru öfundsjúk í titil Babs og ákveða að ná titlinum af henni. Marble-hjónin reka ættleiðingarþjónustu sem í raun og veru er svartamarkaðsbrask með börn. Hjónin ræna ungum stúlkum og barna þær og selja síðan lesbískum pörum börnin og nota gróðan til að fjármagna heróínsölu í grunnskólum. Hjónin ráða síðan stúlku, Cookie, til að sænga með syni Babs og njósna um viðurstyggilega hegðun fjölskyldunnar. Babs kemst að lokum að bellibrögðum Marble-hjónanna og þá hefst keppni sem fljótlega fer algjörlega úr böndunum.

Pink Flamingos er ein þekktasta „miðnæturmyndin“ og leggur áherslu á öfuguggahátt og blæti og er oft minnst fyrir „coprophagiu“. Miðnæturmyndir eru fyrirbæri í kvikmyndaheiminum sem hófst í byrjun áttunda áratugarins í minni kvikmyndahúsum þar sem sjálfstætt framleiddar kvikmyndir voru sýndar á miðnætursýningum og byggðu sér „költ“ ímynd. Aðrar myndir sem nutu vinsælda miðnætursýninganna eru t.d. The Rocky Horror Picture Show (1975), El Topo (1970), Freaks (1932) og The Night of the Living Dead (1968).

John Waters (1946 -, Baltimore, MD) hóf kvikmyndagerð um miðjan sjöunda ártug síðustu aldar og skrifaði, framleiddi og leikstýriði sínum eigin myndum með sjálstætt öfluðu fé. Hann skaut fyrstu myndir sínar á Baltimore svæðinu og notaði undarlegan vinahóp sinn, sem gekk undir nafninu The Dreamlanders. Um hann myndaðist mikil „költ“ ímynd á áttunda og níunda áratugnum fyrir myndir svo sem Pink Flamingos, Female Trouble (1974), Polyester (1981) og Hairspray (1988). Eftir að eftirlætis leik”kona“ hans og listagyðja, Divine, lést 1989 hefur hann mildast þó nokkuð og myndir frá tíunda áratugnum og einnig nýlega hafa verið nær því „venjulegar“ háðsádeilur svo sem as Serial Mom (1994) og Cecil B. DeMented (2000).

Engin ummæli: