Árið 1973 lögðu námuverkamenn í Harlan County, Kentucky, niður störf og hófu verkfall sem stóð í þrettán mánuði. Mynd Barböru Kopple vefur saman þáverandi baráttu námuverkamanna Harlan County og verkfalls frá kreppuárunum sem nefnt heur verið ‘The Bloody Harlan Strike’. Myndin fylgir einnig framboði Alan Miller (fyrir Miners for Democracy) til forseta UMWA (United Mine Workers of America) sem og flakkar aftur nokkur ár aftur til harðrar kosningabaráttu sem leiddi til morðs.
Upphaflegt umfjöllunarefni myndar Kopple var framboð Alan Miller, og réttarhöld þáverandi forseta UMWA, Tony Boyle, sem var grunaður um að hafa skipulagt morðið á mótframbjóðanda sínum, Joseph Yablonski. Þegar verkfallið hófst færði hún athygli sína til námuverkamannanna, líferni þeirra, baráttu og fjölskyldna, en upphaflega efninu haldið í bakgrunninum. Frásögnin hefst hljóðlega með mótmælafundum, kröfugöngum, og skipulagningu eiginkvenna verkamannana á stuðningshópum. Síðan rís hún með atburðum svo sem þegar ráðist er á kvikmyndatökumann og þegar skotið er á mótmælendur og endar að lokum á hatramman hátt þar sem hvorki áhorfandinn né verkamennirnir eru skildir eftir með tilfinningu fyrir lausn á vandanum.
Kopple notar 16mm myndavélar og tekur hljóðið upp á staðnum, og fórnar því gæðum fyrir hreyfanleika. Myndin er í cinema verité stíl en beygir frá honum með notkun á áður uppteknu efni, viðtölum og tónlist. Tónlistin er að mestu byggð á söngvahefð svæðisins og tjáir svipaða dialektík og myndefnið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli