fimmtudagur, janúar 25, 2007

Crumb (Terry Zwigoff, 1994, USA)

Þeir sem þekkja verk myndasöguhöfundarins R. Crumb vita að þar er á ferð maður sem vantar nokkrar dósir í six-pakk. Færri vita að hann er mögulega eðlilegasta manneskjan í fjölskyldu sinni. Í heimildarmynd Terry Zwigoff um listamanninn Crumb kemur fram tregablandinn en engu að síður skemmtileg og heillandi sýn á líf hans þar sem fylgst er með risi hans sem neðjanjarðarmyndasöguhöfundur á 7. áratug síðustu aldar. Myndin fylgist með síðustu mánuðum hans áður en hann leggst í helgan stein og flytur ásamt fjöksyldunni til S.-Frakklands. Viðtöl við vini, ættingja og samstarfsfélaga varpa ljósi á persónuna sjálfa og mótunartíma með tveimur bræðrum, en annar þeirra stundar hugleiðslur á götum San Francisco borgar og hinn er geðsjúklingur, en afar opinská viðtöl við sjálfan Crumb gera myndina afar einlæga og mannlega og byrjar maður sem áhorfandi að skilja Crumb og hans undarlegu lífssýn.

R. Crumb er þekktur fyrir æði frjálslegar teiknimyndasögur þar sem opinskátt kynlíf og undarleg kynlífshegðun eru oft uppi á pallborðinu og meðal verka hans eru upprunalegu sögurnar um köttin Fritz. Framsetning hans á konum er umdeild og eru skiptar skoðanir hvort þetta sé kvenfyrirlitning eða gagnrýni á karlveldið og hræðslu við konur.

Leikstjóri myndarinnar Terry Zwigoff fékk mikið lof fyrir myndina og hún var verðlaunuð í bak og fyrir. Síðari verk hans halda sig við furðufugla og utangarðsmenn og myndasögur en Ghost World, sem gerð er eftir myndasögu Daniel Clowes og Bad Santa sem má segja að sé jafn hráslagaleg og sumar myndasagna Crumb hafa báðar hlotið verðskuldað lof. Svo að lokum má geta þess að aðalframleiðendi myndarinnar er David Lynch sem er yfirlýstur aðdáandi “annars konar” myndasagna.

Engin ummæli: