Þessi magnaða mynd um ástríðu tveggja einstaklinga þykir einhver merkilegasta og stórkostlegasta tilraun kvikmyndar að sýna ást milli manns og konu. Myndin er sú eina sem Jean Vigo gerði í fullri lengd en hann lést stuttu eftir að hún kom út. Goðsögn hans lifir með henni og á hún sinn sess á flestum listum yfir bestu kvikmyndir allra tíma, og ekki af ástæðulausu.
L´Atalante tekur á ást og aðskilnaði hjóna, bátsmannsins Jean og konu hans Juliette. Þau búa á útsilgdum pramma á Signu þar sem Juliette þolir illa við og þráir borgarlíf fasta landsins. Þegar hún fer loks á vit öldurhúsa Parísar reiðist Jean henni og siglir á brott í bræðiskasti, á meðan fer skipsherrann Jules og leitar hennar. Jean verður brátt heltekinn söknuði til konu sinnar sem hefur betur og knýr hann aftur til baka í vonum að sjá sína heitt elskuðu á ný.
Sýnin á samband elskendanna gerir grein fyrir erfiðleikum þess sem aðskilur, en jafnframt algleymingi þess að sameinast á ný. Vigo tekst að sýna kynin sem aðskilda póla en skipsherrann Jules, sem leikinn er af Michel Simon, mitt á milli. Hann er jafnt karl sem kona og barn sem fullorðinn. Simon fer á kostum í myndinni og hleður hana furðulegum anda með blöndu af söng, ruddalegum húmor og frábærum leik. Simon er almennt álitinn einn besti (og franskasti) leikari frakka.
Myrkur svífur yfir myndinni og í bland við magnaða erótík, hafði andi hennar mikil áhrif á leikstjóra frönsku nýbylgjunnar (Godard, Truffaut, Rivette). Myndin er hvoru tveggja afsprengi framúrstefnu- og tilraunamyndaþriðja áratugarins og nokkurs konar fyrirrennari raunsæismynda.
Hún er umfram allt furðuleg en seiðandi ástarsaga tveggja elskenda.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli