Þá er komið að síðustu sýningu okkar fyrir jól og, kannski aðeins meira aðkallandi, próf. Við birtum nánari upplýsingar um myndir kvöldsins síðarmeir en nú viljum við nota tækifærið og þakka fyrir almennt góða mætingu og viðbrögð en við vildum helst fá að heyra meira frá ykkur. Það er hörkuvinna að móta þessa dagskrá og við erum ekki að þessu til að vera með vídjókvöld, heldur er markmiðið að auka fjölbreytileika og dýpka skilning fólks á kvikmyndum, en Það breytir því ekki að það væri þægilegt að heyra meira hvaða kröfur þið sem komið oft til okkar gerið.
Við erum þegar búnir að setja saman dagskrána frá áramótum og fram á vor og munum birta hana fljótlega. Henni má breyta ef okkur berast góðar (alvarlegar) tillögur. Einnig er planið að fá fleiri gesti til að kynna myndirnar og ræða þemun sem eru í sviðsljósinu þá vikuna.
Svona til að það komi fram í eitt skipti fyrir öll, þá er hér það sem kalla mætti mission statement okkar:
Kinofíll er hópur nema í kvikmyndafræðum sem hefur það að markmiði að auka kvikmyndaúrval það sem áhugafólki stendur til boða. Því erum við með vikulegar sýningar. Þar sýnum við, þematengt, mikilvægar eða áhugaverðar myndir. Við sýnum ekki Hollywood myndir, sem er ekki dómur okkar á þeim. Okkur finnst hins vegar að aðgengi að þess háttar efni sé það gott að ekki sé þörf á sýna það. Við tökum gæði eða mikilvægi mynda fram yfir skemmtanagildi þeirra en reynum þó að velja þær einnig með tilliti til skemmtanagildis. Það er okkur mikilvægt að vekja upp umhugsun um málefnin sem tekin eru fyrir hverju sinni og því veljum við oft umdeildar myndir sem þvinga fólk til að taka afstöðu. Það er ekki gert til að stuða áhorfendur.
Við óskum gestum okkar, bæði á sýningarnar og síðuna, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og vonumst til að sjá fleiri og virkari gesti á því komandi.
-Kinofíll.
föstudagur, nóvember 24, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli