sunnudagur, nóvember 26, 2006

In the Mood for Love (Wong Kar-Wai, 2000)

Myndin gerist í Hong Kong á sjöunda áratugnum í litlu fjölbýlishúsi og fjallar um tvo nágranna sem gruna maka sína um að halda framhjá þeim…og með hvoru öðru. Þau sjálf hittast öðru hverju og uppgötva stöðuna smám saman. Þau finna afsakanir til að eyða meiri tíma með hvor öðru til að hugga hvort annað og að lokum komast þau að því að þau eru kannski sköpuð fyrir hvort annað en geta ekki tjáð sínar raunverulegu tilfinningar.

Myndin endurskapar stemmingu Hong Kong sjöunda áratugarins sem gerði einnig fyrri mynd Wong Kar-Wai, Days of Being Wild svo einstaka. Hann gerir raunverlegar persónur úr nánast engu með togstreitunni sem er á milli þeirra. Það sem áhorfandinn sér sem stigmagnandi rómantík, sér Wong Kar-Wai frekar sem tregafulla uppgjöf. Það er ekki það að ástin sé ekki endurgoldin heldur að henni sé neitað að dafna. Tilfinningalegi krafturinn sem myndast kringum það að þau eru ekki í sambandi er hreint og beint magnaður. Þetta er besta framsetning kvikmyndasögunnar á óendurgoldinni ást.

Wong Kar-Wai er í dag margnefndur besti starfandi leiktjórinn og myndir hans fá lof um allan heim þó í Hong Kong séu vinsældir Jackie Chan mun meiri. Eftir að hin kostnaðarsama Days of Being Wild tapaði á sínum tíma tók hann sér nokkura ára hlé. Hann kom aftur með myndir sem fengu mikla athygli á hátíðum vítt um heiminn. Myndir eins og Ashes of Time (1994), Chungking Express (1994), Fallen Angels (1995), Happy Together (1997) og síðar 2046 (2004) hafa gert hann að einum virtasta listræna leikstjórnanum í dag og In the Mood for Love (2000) varð svo vinsæl að honum er kleift í dag að gera eina mynd á ári og veitir honum meira listrænt frelsi, auk þess sem allar helstu stjörnur Asíu vilja starfa með honum.

Engin ummæli: