föstudagur, nóvember 17, 2006



Áður en lengra er haldið er rétt að vara við því að þessi mynd er afar, afar gróf og gengur mjög langt í ofbeldi (þ.m.t. kynferðislegu) og inniheldur raunveruleg dýradráp.

Þessi mynd er sú eina í langri röð af ítölskum mannætumyndum sem hægt er að segja að hafi elst vel. Hún er líka sú eina sem nálgast að vera klassík og er það eingöngu vegna þess að hún er meira en bara sérstaklega gróf ofbeldismynd, sem hún óneitanlega er. Hún hefur vissa hluti að segja og þeir hlutir hafa mun meira vægi í dag en þegar hún kom út.

Myndin er á yfirborðinu kannski ekki svo góð. Leikurinn er ekki upp á marga fiska, söguþráðurinn er frekar loðinn og efnistökin eru ekki fögur. En brellurnar eru vel gerðar, þrátt fyrir að vera allt annað en fallegar, tónlistin er afar góð og skilaboð myndarinnar eru lykilatriði við að meta hana.

Raunverulegt umfjöllunarefni Cannibal Holocaust er fjölmiðlar og sú þróun að þeir virðast oftar en ekki eltast meira við hörmungar og gott myndefni en endilega fréttir eða raunveruleikann. Nú þegar raunveruleikaþættir með mismiklum raunveruleika tröllríða sjónvarpi verður þessi hugsun á mikilvægari. Spurningin um hvað sé gert til að ná sem bestu eða merkilegustu myndefni verður mjög áleitin eftir þessa mynd.

Leikstjórinn gerir heiðarlega tilraun til að vekja áhorfandann til umhugsunar en vegna þrýstings frá peningafólkinu var hann þvingaður til að leggja ívið meiri áherslu á ofbeldið en boðskapinn og er titill myndarinnar frá þeim kominn en ekki leikstjóranum.

Það er von Kinofíls að áhorfendurnir hugsi frekar um þessa mynd í samhengi boðskapsins en ofbeldisins, þó það sé óumflýjanlegt.

Engin ummæli: