fimmtudagur, október 19, 2006


Come and See (Idi i Smotri, Elem Klimov, 1985)

Ungur strákur í Hvíta-Rússlandi ákveður að berjast gegn nasistunum með rifli sem hann finnur á víðavangi. Eftir viðskilnað við herdeild sína ákveður hann að koma sér heim og við tekur martraðarkennd ferð.

Engin stríðsmynd og fáar myndir yfirleitt eru jafn kraftmiklar, truflandi og áhrifaríkar. Myndin sýnir á virkilega óþægilegan hátt hvernig það er að vera fastur í stríði...Ekki í orrsustu eða bardaga, heldur í miðju stríði. Hún virðir að vettugi klassíska hluti úr stríðsmyndum eins hetjuskap eða hetjulegar fórnir eða þjóðernisþætti og ræðuhöld til að rífa upp fólkið gegn óvininum. Við fáum upp í hendurnar dauða, grimmd og fórnarlömb. Það er engin leið að spá hverjum er hlýft og hverjum ekki.

Það verður að hrósa Elem Klimov fyrir hugrekki sitt og sannfæringu, það þarf mikið þor til að gera svona dimma mynd. Einnig þarf að hrósa aðalleikaranum Aleksei Kravchencko sem var aðeins þrettán ára þegar hann lék í myndinni. Þessi mynd er ógleymanleg og hefur meiri áhrif á áhorfandann en langflestar aðrar myndir. Hún öskrar upp spurninguna um hvernig nokkuð svona skelfilegt og rangt gat nokkurn tímann gerst.

Það eru til margar, margar myndir (ekki bara frá Hollywood) sem eru gegn stríði. En þær falla yfirleitt í þá gryfju að gera stríðið æsandi og jafnvel fallegan hlut að horfa á, og má þar nefna Apocalypse Now, sem Come and See er oft borin saman við. En Come and See sýnir stríð sem Helvíti á Jörðu.

1 ummæli:

Kinofíll sagði...

Svona áður en e-r verður brjálaður þá finnst Kinofíl Apocalypse Now vera stórkostleg. Við erum bara að benda á að bardagasenur hennar eru bæði spennandi og gullfallegar, þrátt fyrir skýra andstöðu myndarinnar við stríðsrekstur.