Suspiria (Dario Argento, 1977)
Myndin byrjar sem ítalskur giallo (pulp-þriller) með röð morða sviðsettum í barokk umhverfi söngleiks. En Argento minnir á að kvikmyndin er ekki einvörðungu sagan sem hún segir, heldur upplifun. Það sem hann afhjúpar er ekki grímuklæddur morðingi heldur heimur yfirnáttúrulegra afla og illra norna. Myndin er ítölsk, gerist í Þýskalandi og er sjálf á ensku, að vísu er myndin endurtalsett í anda ítalskrar kvikmyndagerðar og kemur það spánskt fyrir sjónir þar sem hljóð og mynd fara oft ekki saman. Hún fjallar um unga bandaríska konu sem kemst inn í balletskóla í Þýskalandi, þar er ekki allt með felldu og lík taka að hrannast upp.
Litanotkun og tónlist myndarinnar skapa yfirbugandi umhverfi sem maður verður ósjálfrátt hluti af. Balletskólinn sem myndin gerist í er óraunverlegur í sjálfu sér en skapar andrúmsloft sem fangar og er gríðarlega fallegt og ógnvekjandi í senn. Tónlist myndarinnar er samin af hljómsveit Argentos sjálfs, Goblin, hún er afar óvenjuleg og gefur myndinni viðeigandi hljómheim. Tónlistin er fyrir löngu komin með “költ” status meðal aðdáenda myndarinnar sem og annarra.
Myndin er ekki aðeins síðbúið innlegg í undirgrein Evrópskra hryllingsmynda. Hún er einnig afar vel stílfærð, undir áhrifum frá lærimeistara Argentos, kvikmyndatökumanninum og leikstjóranum Mario Bava. Það má helst sjá á afar vel útfærðri myndatöku sem er bein vísun í stílbrögð Bava og Argento gerir að sínum.
Myndin er í raun ævintýri í anda Grimms bræðra, stílfærð vitfirring frá upphafi til enda, sem dregur áhorfandann með sér.
þriðjudagur, október 31, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli