föstudagur, janúar 05, 2007

Once Upon a Time in China 2 (Wong Fei Hung ji yi: Naam yi dong ji keung, Tsui Hark, 1992)

Myndin er augljóslega önnur myndin í flokki mynda um kínverku alþýðuhetjuna Wong Fei Hung, sem lifði á árunum 1847-1924 og var virtur læknir ekki síður en bardagamaður. Það eru til langt yfir hundrað myndir um hann og eru margar þeirra meðal virtustu og þekktustu kung fu mynda sögunnar. Þessi myndaflokkur næði samanlagt sex myndum og eru fyrstu þrjár allar mjög góðar en hinar síðri.

Tsui Hark er einn afkastamesti kvikmyndagerðarmaður Hong Kong fyrr og síðar. Hann hefur bæði leikstýrt eða framleitt margar af merkari myndum Hong Kong undanfarna tvo áratugi og nægir að nefna samstarf hans við menn eins og John Woo, Ringo Lam og Woo-Ping Yuen. Þegar Once Upon a Time in China varð alþjóðleg risamynd hóf hann strax undirbúning að annari mynd og gerði að minnsta kosti jafngóða og að margra dómi betri mynd. Ólíkt hefðbundnari myndum um Wong Fei Hung er þetta ekki bara hasar- eða gamanmynd, heldur líka nokkur þjóðfélagsrýni og óneitanlega nokkuð pólitísk. Það er kafað töluvert ofan í gömul kínversk gildi og bæði skoðaðar þær breytingar sem hafa orðið á þeim með tilkomu erlendra siða og sjálfstæðis.

En þetta er ekki þung dramatísk mynd þó undir niðri sé naflaskoðun. Sögufléttan er flókin og tekur sífelldum breytingum og hasarinn er mikill. Eins og og oft vill verða var mikið lagt upp úr því að hafa bardagasenurnar að minnsta kosti jafnstórar og í fyrri myndinni og helst miklu stærri. Það tekst svo um munar og er lokabardaginn milli Jet Li og Donnie Yen með þeim svakalegri sem sést hafa.

Engin ummæli: